Við Digranesveg 5 stendur ein af fallegri byggingum gamla Kópavogs. Á árum áður hýsti húsnæðið meðal annars Reiknistofu Bankanna, Útvegsbanka Íslands og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Húsið, sem er byggt árið 1974, er hannað af Gísla Halldórssyni og Teiknistofunni Ármúla 6, sem kom að fjölda opinberra bygginga á þessum tíma. Meðal verka Gísla eru Tollhúsið, Laugardalshöll, Hótel Loftleiðir svo fátt eitt sé nefnt.
Staðsetning hússins er afar góð en það liggur að svæði þar sem samkvæmt framtíðaráætlunum Kópavogsbæjar mun hýsa nýjan miðbæ Kópavogs með blandaðri byggð. Samliggjandi lóðinni eru næg bílastæði, góðar almenningssamgöngur og hjólaleiðir.