Austurbæjarbíó – Bullseye
Snorrabraut 37
101 Reykjavík

Austurbæjarbíó er ein glæsilegasta og sögufrægasta menningarbygging Reykjavíkur, en húsið var vígt sem kvikmyndahús árið 1947. Frá þeim tíma hefur það gegnt margvíslegu hlutverki – sem bíó, tónleikasalur, leikhús og fjölbreytt viðburðarrými.

Húsið var hannað af Herði Bjarnasyni, Gunnlaugi Pálssyni og Ágústi Steingrímssyni, og byggt af athafnamönnum í Reykjavík fyrir tilstuðlan Tónlistarfélagsins í Reykjavík. Byggingin er í íslenskum fúnkísstíl og var sérstaklega hönnuð með tilliti til tónlistarflutnings og hljómburðar. Stórt svið hússins rúmaði allt að 40 manna hljómsveit, og þar tróð meðal annars breska hljómsveitin The Kinks upp árið 1965.

Á efri hæð hússins var skemmtistaðurinn Silfurtunglið rekinn á árunum 1955–1975, en síðar opnaði kvikmyndahúsið Bíóborgin, sem var fyrsta bíó landsins með THX-hljóðkerfi. Þrátt fyrir umbreytingar og breytta nýtingu í gegnum áratugina hefur húsið haldið í sinn einstaka karakter og sérstöðu.

Í dag er pílustaðurinn Bullseye rekinn í Austurbæjarbíói ásamt viðburðarrými og tónleikasal.

Fermetrar
1711 fm²
Byggingarár
1947